Eitt af því mikilvægasta í veiðistjórnun er að hafa góð og örugg gögn í höndunum um ástand veiðistofnsins á hverjum tíma. Hvað varðar rjúpuna þá skiptir aldurssamsetning miklu máli þar sem hún segir til um stofnsveiflur. Aldursamsetning er könnuð þrisvar á ári, í upphafi varptíma, í byrjun ágúst þegar ungar eru stálpaðir og á skotveiðitíma. Nú, á skotveiðitíma safnar Náttúrufræðistofnun Íslands að venju vængjum frá veiðimönnum til að aldursgreina aflan. Veiðar hafa ekki gengið vel í haust, meðal annars vegna veðurs og því fáir vængir skilað sér. Það er því mikilvægt að veiðimenn komi vængjum af sínum fuglum til Náttúrufræðistofnunar til að marktækt sýni náist. Einungis er beðið um hægri væng en best er að klippa hann af með greinaklippum við ystu liðamót þannig að aðeins handflugfjarðirnar fylgi með. Þetta má svo senda til:
Náttúrufræðistofnun Íslands
- rjúpnavængir
Urriðaholtsstræti 6 – 8
Pósthólf 125
212 Garðabær
Þeir sem búa á Norðausturlandi geta komið vængjum til Náttúrustofu Norðausturlands á Húsavík. Þeir sem skila inn vængjum geta svo fengið upplýsingar um aldurshlutföll í sínum afla.