Upphafið

Norðausturhorn landsins er gríðarlega mikilvægt búsvæði fálka en þar er aðalfæða hans rjúpan einnig í mestum þéttleika. Í Jökulsárgljúfrum, Vatnajökulsþjóðgarði, er kjörlendi fálkans og þéttleiki fálkaóðala er óvíða jafn mikill og þar.

 

Sumarið 2009 verpti fálki í Ásbyrgi sem oft fyrr. Á miðju sumri þegar ungarnir voru að stíga sín fyrstu skref utan hreiðursins, þurftu starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs ítrekað að hafa afskipti af ungunum sem héldu til við veginn inn í byrgið. Í ljós kom að annað foreldrið var látið og hitt hafði ekki undan að bera fæðu í sársoltna fálkaungana. Fálkaungarnir dvöldu því lengur í námunda við hreiðrið en venja er, trufluðu þar bílaumferð og hætta var á að ekið yrði yfir þá. En ungarnir vöktu líka athygli og forvitni ferðamanna enda ekki á hverjum degi sem þeir sjá þennan tígulega fugl í návígi.

 

Til að tryggja verndun fálka gilda sérstakar reglur um umferð manna í grennd við hreiður þeirra og í tilviki unganna í Ásbyrgi varð að koma í veg fyrir að umferð ferðamanna hefði neikvæð áhrif. En fuglaskoðarar og aðrir fuglaáhugamenn sækjast eftir að fá að sjá fálkann í sínu náttúrulega umhverfi og hugmyndin um að nýta kjöraðstæður Jökulsárgljúfra til að fræða gesti um fálkann og sýna hann þar undir eftirliti varð til. Í Gljúfrastofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi, er auk þess aðstaða til að koma upp fræðslu um fálkann og tengja við aðra fræðslu sem þjóðgarðurinn veitir. Í kjölfar þessara hugmynda var haft samband við Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofu Norðausturlands og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og var hugmyndinni vel tekið á öllum stöðum. Myndaður var starfshópur til að vinna frekar að þróun hugmyndarinnar og undirbúningi að stofnun félags um Fálkasetrið. Stofnfundur félagsins var haldinn í Gljúfrastofu í Ásbyrgi þann 1. mars 2011 og voru stofnfélagar 36. Hér má sjá samþykktir fyrir Fálkasetur Íslands.

 

Fálkasetrið er tileinkað minningu Theodórs Gunnlaugssonar, náttúruskoðara og sjálfmenntaðs náttúrufræðings sem fæddist og ólst upp á Hafurstöðum í Öxarfirði austan Jökulsár á Fjöllum. Enginn þekkti Jökulsárgljúfur eins vel og Theodór og eftir hann liggur mikið af rituðu efni um náttúru svæðisins, þar á meðal fálkann og rjúpuna.