„Fálki á veiðum flýgur hratt og lágt yfir jörðu og kemst þannig í návígi við grandalaust fórnarlamb eða hann steypir sér að bráðinni hátt úr lofti. Stundum hremmir hann fugla í klærnar eða hann slær þá niður og snýr svo snarlega aftur til að sækja fenginn. Hann drepur hvort heldur er í lofti eða á jörðu og einnig getur hann tekið bráð bæði á sjó og vatni. Sleppi fugl undan fyrstu atlögu fálka upphefst mikill eltingaleikur þar sem báðir reyna sitt ýtrasta – bráðin annaðhvort að fljúga fálkann af sér eða klifra í loftinu upp fyrir hann, en fálkinn aftur á móti að fljúga fuglinn uppi og vera rétt fyrir ofan hann og aftan um það bil sem hann gerir atlögu að honum.“ (Ólafur K. Nielsen 2002. Fálki kostgangari. Náttúrufræðingurinn 71 (4-7)).