Ránfuglar

Til ættbálks ránfugla, Falconiformes, teljast fimm ættir (samkvæmt fuglalista Clements útgáfa 6.3.2, 2008):

  • Haukaætt, Accipitridae.
  • Fálkaætt, Falconidea.
  • Hrævaætt, Cathartidae
  • Gjóðaætt, Pandionidae
  • Örvaætt, Sagittariidae

Stærsta ættin er haukaætt, en til hennar teljast meðal annars gleður, vákar, heiðir, ernir, sjóernir og haukar, samtals 237 tegundir. Næst stærsta ættin er fálkaætt, Falconidae, með um 65 tegundir. Hrævaætt, tilheyra 7 tegundir en eins og nafnið ber með sér eru þeir hræætur. Aðeins ein tegund tilheyrir gjóðaætt, gjóðurinn og sama má segja um örvaættina en þar er það tegundin örvi sem aðeins finnst í Afríku.

Ránfuglar eru kjötætur og allir ránfuglar, að undanskildum ránfuglum af hrævaætt, drepa dýr sér til matar og veiða þeir bráðina með fótunum. Helstu einkenni ránfugla er mjög góð sjón, sterkt krókbogið nef og sterkir fætur með hvassar og bognar klær. Þeir eru kraftmiklir flugfuglar og hafa sterka brjóstvöðva.

Ránfuglar nota sterkt nefið til að rífa og tæta í sig bráðina. Allir ránfuglar hafa sarp þar sem þeir geyma umfram fæðu í en því sem þeir geta ekki melt skila þeir frá sér um munninn í formi samþjappaðs kögguls sem við köllum ælu. Slíkar ælur innihald hár, fiður og ómeltanleg bein af bráðinni.

Hjá flestum ránfuglum er kvenfuglinn stærri en karlfuglinn en talið er að sá stærðarmunur gefi pörunum færi á að nýta sér meira úrval bráðar innan sama yfirráðasvæðis.

Á Íslandi eru aðeins þrjár tegundir sem teljast til ættbálks ránfugla.