Ránfuglar á Íslandi

Á Íslandi eru aðeins þrjár tegundir af ættbálki ránfugla. Haförn (Haliaeetus albicilla), fálki (Falco rusticolus) og smyrill (Falco columbarius). Haförnin er stærstur arna í Evrópu og er hann mestur íslenskra ránfugla. Hann er staðfugl og er varp hans bundið við vestanvert landið, mest við Breiðafjörð. Íslenski stofninn er mjög lítill og lá við útrýmingu í byrjun tuttugustu aldarinnar. Landslög björguðu stofninum og hefur hann verið alfriðaður frá 1914.

Fálkinn er stærstur allra fálkategunda, hann er tígulegur fugl og mjög flugfimur. Íslenski stofninn er ekki stór og telur um 300-400 pör. Fálkinn er staðfugl og vetrarstofninn telur um 1000 – 2000 fugla. Fálki hefur verið alfriðaður frá 1940.

 

 

Smellið á myndirnar til að stækka þær

Smyrill er minnstur allra fálka í Evrópu en bætir smæðina upp með mikilli hugdirfsku. Smyrill er algengastur ránfugla á Íslandi og telur stofninn um 1000 – 1200 pör. Smyrill er að mestu farfugl en mjög lítill hluti íslenska stofnsins heldur sig við sjávarsíðuna hér heima á veturna.  Vetrarstöðvar eru annars aðallega á Bretlandseyjum en einnig hefur hann fundist á vesturströnd meginlands Evrópu.