Fjallrjúpan (Lagopus muta) er þéttvaxinn, lágfættur fugl með stutta og breiða vængi. Fætur og tær eru fiðraðar sem dregur út hitatapi og auðveldar gang í snjó. Nefið er stutt, svert og svart að lit. Augun eru einnig svört og yfir þeim eru rauðir kambar sem geta verið missýnilegir, mest áberandi hjá körrunum á vorin. Meðalþyngd fuglanna er um 500 g og eru karrarnir heldur þyngri en hænurnar.
Smellið á myndirnar til að stækka þær.Eitt af því sem gerir rjúpuna sérstaka er að hún skiptir um bolfiður þrisvar sinnum á ári en flestar aðrar tegundir aðeins einu sinni. Við hver skipti fær rjúpan nýjan búning og á hún sér því vetrarbúning, sumarbúning og haustbúning. Flug- og stélfjöðrum er hins vegar bara skipt út einu sinni á ári og bera því alltaf sama lit, flugfjaðrir hvítar en stélfjaðrir svartar. Í vetrarbúningi er fjaðurbúningurinn hvítur nema karrar hafa svartan taum frá nefi og rétt aftur fyrir augu. Sumar hænur hafa einnig slíkan taum en hann er þá minni og daufari. Sumar- og haustbúningar rjúpunnar eru svipaðir en þá er fuglinn yrjóttur þar sem skiptast á ljósbrúnar og svartar yrjur sem mynda afar fullkominn felulit. Yrjurnar á körrunum eru fíngerðari en á hænum og þeir virðast því jafnlitaðri. Fiðurskipti kynjanna gerist á sama tíma en á vorin þegar rjúpan skiptir úr hvítum vetrarbúningnum yfir í sumarbúninginn þá gerast fjaðurskiptin mjög hægt hjá körrunum. Þetta veldur því að þegar líður á maí er hænan orðin brún en karrinn aðeins byrjaður að verða flekkóttur. Hann er ekki kominn að fullu í sumarbúning fyrr en seint í júní. Þessi hægu búningaskipti karranna hjálpa þeim að auglýsa óðal sitt. Á þessum tíma hreykja þeir sér sem hæst, verða við það mjög áberandi og senda þannig skýr skilaboð út í samfélag rjúpnanna um að þeirra óðal sé setið.