Vöktun rjúpnastofnsins
Náttúrufræðistofnun Íslands sér um að vakta rjúpnastofninn og er umsjónarmaður þess verkefnis dr. Ólafur Karl Nielsen.
Markmið með vöktuninni er að fylgjast með ástandi rjúpnastofnsins og veita áreiðanlega ráðgjöf um veiðiþol. Vöktunin felur í sér að árlega eru eftirfarandi stofnþættir mældir:
- Fjöldi karra á afmörkuðum talningarsvæðum að vorlagi
- Aldurshlutföll í stofninum að vorlagi
- Aldurshlutföll í stofninum síðsumars
- Aldurshlutföll í stofninum á veiðitíma
Þessir þættir eru svo nýttir við útreikninga á stofnstærð og mati á veiðiþoli.
Heilbrigði rjúpnastofnsins
Haustið 2006 hóf Náttúrufræðistofnun Íslands rannsóknir á heilbrigði rjúpnastofnsins sem gert er ráð fyrir að standi yfir í a.m.k 10 ár eða eina stofnsveiflu. Markmið þessara rannsókna er að kanna hvort tengsl séu á milli heilbrigðis rjúpunnar og stofnbreytinga. Fuglum er safnað á Norðausturlandi í október ár hvert og eftirfarandi þættir athugaðir:
- Holdafar
- Sjúkdómsvaldar
- Virkni ónæmiskerfis og fitukirtils
- Streituástand