Rjúpan kemur víða fyrir í þjóðtrú Íslendinga en þekktust er sagan af rjúpunni og Maríu mey.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir einnig:
„Sagt er að jafnan standi á stöku rjúpueggin og ef maður finni fyrst egg á ævi sinni í rjúpuhreiðri eigi hann að eignast jafnmörg börn á síðan“.
Rjúpan verpur að jafnaði 10-11 eggjum og fyrr á öldum var ekki óalgengt að hjón ættu svo mörg börn þó aðeins hluti þeirra kæmist upp. Hitt er svo annað mál að það er mjög erfitt að finna rjúpuhreiður vegna þess hve vel falin þau eru og því mjög ólíklegt að rjúpuhreiður séu fyrstu hreiðrin sem menn finna!
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir einnig:
„Ekki má láta konur leggjast á rjúpnafiðursængur þá þær skulu fæða; því þá verður fæðingin mjög treg ella ómöguleg nema skipt sé um sængur“
„Ef ólétt kona borðar rjúpuegg verður barnið freknótt“.
„Ef rjúpnafiður er eingöngu í sæng manns þá getur maður ekki dáið“.
Þá hafa menn einnig spáð í veðrið út frá hegðun rjúpunnar. Ef rjúpur eru mjög styggar í góðu veðri boðar það vind og ekki þykir gott ef rjúpur koma nærri húsum manna þar sem það þykir boða vonda tíð.
Orðatiltækið „Að rembast eins og rjúpan við staurinn“ er gjarnan notað þegar menn reyna til hins ýtrasta án þess að ná tilætluðum árangri.