Þetta orðatiltæki er þannig útskýrt í þjóðsögum Jóns Árnasonar:
„Þessi talsháttur er svo til orðinn að þegar maður finnur fyrst á vorin rjúpuhreiður skal ekki taka eggin undan henni, heldur láta hana verpa við. En það má með því móti að maður setji lítinn staur upp á endann niður, sumir segja í mitt hreiðrið milli eggjanna, en aðrir utan við hreiðrið, og hinir þriðju segja að það nægi að setja tréspæni í hreiðrið svo hærra beri á þeim en eggjunum. Þegar búið er að þessu og maðurinn er genginn burtu sezt rjúpan á eggin og verpir við þangað til hún hefur orpið svo mörgum eggjum að staurinn fer í kaf eða að eggjahrúgan taki jafnhátt honum, sé hann settur fyrir utan hreiðrið, og þaðan er orðskviðurinn dreginn, og er hann einnig hafður um það sem örðugt veitir að koma af“.
Sagt er að með þessu móti sé hægt að fá rjúpuna til að verpa 19 eggjum, en hún deyi þegar hún ætlar að verpa því tuttugasta. Þess vegna átti að taka staurinn burt þegar rjúpan var búin að verpa 19 eggjum. Ekki þótti gæfumerki að pína rjúpuna með þessu.
Sú skýring er einnig á þessu orðatiltæki að rjúpur hafi hér áður fyrr verið bundnar við staura sem agn fyrir fálka þegar fálkaveiðar voru stundaðar í ábataskyni. Þær rembdust þá við að reyna að losa sig frá staurnum.