Rándýrum er oft skipt í tvo hópa, sérhæfð og ósérhæfð rándýr. Sérhæft rándýr lifir að mestu leyti á einni tegund bráðar og hefur öll þróun viðkomandi tegundar miðast að því að gera hana hæfari til að veiða þá bráð. Þau eru því algjörlega háð bráð sinni og fylgir stofnstærðin yfirleitt stofnstærð bráðarinnar. Þetta virkar þó ekki aðeins á einn veg því öll þróun bráðarinnar er í þá átt að losna undan afráni rándýsins.
Ósérhæfðu rándýrin hafa á hinn bóginn þróast á þann veg að geta nýtt sér sem flestar fæðuuppsprettur. Þau eru því ekki háð einni tegund bráðar heldur veiða það sem mest er af og aðgengilegast á hverjum tíma. Þannig endurspeglar fæðan framboð hvers tíma sem getur verið breytilegt eftir árum og árstíðum.
Fálkinn er mjög gott dæmi um sérhæft rándýr sem hefur helgað sig rjúpnaveiðum. Rjúpan er langmikilvægasta bráð fálkans allt árið um kring og miðast varpið við hversu auðvelt er að veiða rjúpur. Á vorin frá lokum apríl og fram í júní eru karrar áberandi þar sem þeir hreykja sér hátt og verja sín óðul. Þeir eru því auðveld bráð fyrir fálkann en á þessum tíma sér eingöngu karlfuglinn um veiðar þar sem kvenfuglinn liggur á eggjum eða litlum ungum. Fálkaungar eru mjög viðkvæmir fyrstu dagana og þola ekki sult. Það er því nauðsynlegt að nægt fæðuframboð sé til staðar á þessum tíma enda karlfuglinn einn við veiðar og þarf að metta sig, kvenfuglinn og ungana. Þegar líður á sumarið fer að verða erfiðara að finna og veiða rjúpu þegar karrarnir eru komnir í sumarbúning og hænurnar með litla unga og fara því leynt. Á þeim tíma eru fálkaungarnir orðnir nógu stórir til að halda á sér hita sjálfir og kvenfuglinn ekki bundinn yfir þeim. Báðir foreldrarnir geta því stundað veiðar á því tímabili þegar erfiðast er að ná í rjúpu. Síðla sumars glæðist rjúpnaveiðin svo aftur þegar rjúpuungarnir eru orðnir fullvaxta og sjálfstæðir en hafa hins vegar takmarkaða reynslu af lífinu og feluleiknum fyrir fálkanum. Þennan tíma nýtir fálkinn til að þjálfa unga sína í veiðum sem þá eru orðnir fleygir og verða smám saman sjálfbjarga við rjúpnaveiðarnar.
Það má því segja að varptími fálkans sé aðlagaður að því hve auðvelt er að veiða rjúpu þannig að viðkvæmustu tímarnir eru þegar rjúpnaveiðin er hvað auðveldust. Þetta veldur því hins vegar að undirbúningur varps þarf að hefjast mjög snemma, löngu áður en rjúpnaveiði glæðist á vorin. Á þessum undirbúningstíma hættir kvenfuglinn að veiða og þarf karlfuglinn að fæða hana og fita upp fyrir varpið. Það gerir hann með því að veiða rjúpur sem er misauðvelt og fer eftir staðsetningu óðals og stærð rjúpnastofnsins. Þegar lítið er um rjúpur verpa því fá fálkapör en fleiri þegar rjúpnastofninn er stór.
Heimild: Ólafur Karl Nielsen, 2012
Rjúpan hefur líka aðlagast afráni fálkans. Þannig skiptir hún um bolfiður og þar með lit þrisvar á ári og er því ávallt í mjög góðum felubúningi. Hún er líka meðvituð um felubúning sinn og nýtir hann svo sem með því að halda sig í skafljöðrum á vorin á meðan hún er enn hvít. Einnig heldur hún sig oft á stöðum sem fálki á erfitt með að ná henni s.s. við girðingar, runna eða stórgrýti.
Afráninu hefur rjúpan líka svarað með mikilli frjósemi. Segja má að allt varpmynstur rjúpunnar sé aðlagað að því að hámarka ungaframleiðslu. Einungis hænan sér um álegu og ungauppeldi og er karrinn því óþarfur nema til að frjóvga eggin. Fjölkvæni er stundað og falli karri frá að vori tekur nágranna karrinn yfir óðalið. Allar hænur fá því egg sín frjóvguð. Áberandi litur og atferli karrans veldur því líka að veiðar fálkans beinast að körrum og veiðiálag á hænur minnkar að sama skapi. Það má því segja að körrum sé fórnað til að halda uppi mikilli ungaframleiðslu. Á haustin hverfur rjúpan svo til fjalla þar sem hún getur betur falið sig og varið gegn fálkanum en fer á næturnar niður á mólendið til beitar á meðan fálkinn sefur. Allt lífsmynstur rjúpunnar er því mótað af afráni fálkans.