Rjúpur byrja að mæta á varpstöðvarnar strax í byrjun apríl. Karrarnir mæta á undan hænunum en sumir þeirra fara aldrei langt frá og eru nánast viðloðandi varpstöðvarnar árið um kring. Upp úr 20. apríl setjast karrarnir upp og byrja að auglýsa óðul sín. Þá sitja þeir gjarnan á áberandi stöðum þar sem þeir sjá vel yfir óðalið. Aðrir karrar sem koma inn á óðalið eru umsvifalaust reknir burt. Á þessum tíma eru karrarnir hvítir og verða fram í júní á meðan þeir verja sín óðul. Rauðu kambarnir ofan við augun eru mjög áberandi á þessum tíma, sérstaklega þegar hæna er í grennd. Kambarnir eru mjög æðaríkir og ræðst stærð þeirra af blóðflæðinu. Þannig eru þeir vart sjáanlegir þegar fuglinn vill dyljast en mjög áberandi í tilhugalífinu og standa þá upp fyrir kollinn. Hænurnar koma aðeins seinna á varpstöðvarnar eða um svipað leyti og karrarnir fara að setjast upp. Þær eru einnig hvítar þegar þær mæta en skipta hratt um fiðurham og eru komnar í fullan sumarbúning seinnipartinn í maí.
Ekki er hægt að tala um eiginleg pör hjá rjúpunum og fer dreifing hænanna ekki eftir óðulum karranna. Hæna sem er á mörkum tveggja óðala getur makast við báða karrana sitt á hvað. Innan hvers karraóðals eru líka mismargar hænur og sinnir hann þeim öllum. Ef nágrannakarri fellur frá þá tekur hann yfir það óðal og sinnir þeim hænum sem þar búa. Á þessum tíma um vorið er fálkinn duglegur að veiða rjúpur og verða karrar fyrst og fremst fyrir afráninu enda áberandi. Segja má því að kvenfuglarnir sleppi en körrunum sé fórnað. Kynjahlutföllin breytast því eftir því sem líður á vorið en það kemur ekki niður á frjósemi hænanna því alltaf er einhver karri eftir til að sinna skyldunni.
Í lok maí hefja hænurnar varp. Þær velja sér hreiðurstað af kostgæfni. Hreiðrið er yfirleitt staðsett milli þúfna og gjarnan með gróðurhulu yfir þannig að nánast ómögulegt er fyrir mannlegt auga að greina þær á hreiðrinu. Þær verpa einu eggi á dag þar til komin eru um 10 til 11 egg. Þá hefst álegan sem stendur í þrjár vikur uns eggin klekjast í lok júní. Karrarnir taka engan þátt í álegu eða ummönnun unga. Þeir hætta að verja óðal sitt þegar ungarnir koma úr eggjum en halda sig samt á svæðinu áfram.
Ungarnir eru háðir móður sinni um yl fyrstu dagana. Þeir eru þá viðkvæmir og votviðri og kuldatíð getur auðveldlega grandað þeim. Um 10 daga gamlir verða þeir fleygir þó þeir hafi litla stjórn á fluginu. Tilgangurinn með að öðlast flughæfni svo snemma er vörn gegn afræningjum svo sem refnum. Rjúpan treystir mikið á felubúning sinn sem vörn gegn afræningjum og liggur kyrr þegar hættu ber að. Ef ógnin kemur of nálægt fljúga allir ungarnir upp á sama tíma og þar sem ungarnir hafa ekki mikla stjórn á fluginu þá tvístrast hópurinn. Þetta ruglar afræningjann sem á erfitt með að einbeita sér að ákveðnum unga og gæti því misst af öllum. Ungarnir fljúga fáeina metra og leggjast niður þar sem þeir lenda og verða við það nánast ósýnilegir enda felubúningurinn góður. Þegar hættan er liðin hjá kallar hænan ungana til sín aftur. Algengt er að sjá hænur með stóran hóp unga en að meðaltali koma þær upp um 7 ungum.