Fálkasetur Íslands er tileinkað minningu Theodórs Gunnlaugssonar frá Bjarmalandi í Öxarfirði, náttúruskoðara, veiðmanns og rithöfundar.
Theodór fæddist á heiðarbýlinu Hafurstöðum í Öxarfirði þann 27. mars 1901 en Hafurstaðir eru í næsta nágrenni við Jökulsárgljúfur. Theodór var mikið náttúrubarn og beindist áhugi hans einkum að öllu því sem tengdist náttúrunni og verndun hennar. Frá gljúfrum Jökulsár aflaði hann sér ómældrar þekkingar á náttúru landsins en enginn þekkti svæðið meðfram Jökulsá eins vel og hann. Hann fylgdist glöggt með atferli dýra og voru fálkinn og rjúpan honum afar hugleikin. Einnig þekkti hann vel til refa en hann stundaði refaveiðar um árabil. Theodór var sískrifandi og var honum mikið í mun að miðla af þekkingu sinni um náttúruna. Eftir hann liggja þrjár bækur, fjöldi greina sem birtar voru í ýmsum tímaritum, óbirt efni og sendibréf.