Veiðimaðurinn

Theodór var snjall veiðimaður en bar ávallt mikla virðingu fyrir náttúrunni og verndun hennar. Hann stundaði meðal annars refaveiðar framan af ævinni og náði þar mikilli leikni. Fyrir það varð hann landsfrægur. Í minningargrein um Theodór sem Helgi Hallgrímsson ritar í Týli árið 1985 segir:

„Að hætti góðra veiðimanna, lagði hann sig eftir því að kynnast eðli og lifnaðarháttum veiðidýrsins, og munu fáir hafa verið betur að sér um það efni.  Árangur þeirra kynna er að finna í um 20 blaða- og tímaritsgreinum, en þó fyrst og fremst í bók hans, Á refaslóðum, sem Búnaðarfélag Íslands gaf út árið 1955.

Bók þessi er einstætt ritverk í bókmenntaheimi okkar Íslendinga. Hún er ekki einungis full af frásögnum af eigin reynslu veiðimannsins, heldur er hún líka dýrafræði refsins og kennslubók í refaveiðum sem sérstakri list“.

Theodór bar mikla virðingu fyrir íslenska refnum líkt og annarri veiðibráð. Hann fylgdist náið með atferli dýranna og nýtti sér það óspart við veiðarnar. Meðal annars lærði hann að herma eftir tófunni hin margvíslegustu hljóð.  Upptökur

Theodór var mjög umhugað um verndun rjúpunnar og bera nokkrar greinar hans í tímarit glöggt merki um það. Sjá ritaskrá.