Verndun

Fálkinn (Falco rusticolus) hefur verið alfriðaður á Íslandi frá árinu 1940. Íslendingar bera alþjóðlega ábyrgð á verndun tegundarinnar en í dag er fálkinn á Válista Náttúrufræðistofnunar Íslands og er þar flokkaður sem tegund í yfirvofandi hættu. Helstu ógnir við fálkann eru taldar vera dráp á fullorðnum fuglum, stuldur á eggjum og ungum, hnignun rjúpnastofnsins, eyðilegging á fálkaóðulum og uppsöfnun þrávirkra eiturefna í fæðuvefnum.

Íslendingar hafa löngum veitt rjúpur (Lagopus muta) sér til matar. Veiðar á rjúpu eru takmarkaðar við veiðitímabil og fjölda veiðidaga á haustin. Ráðgjöf um veiðar og veiðiþol byggir á vöktun með ástandi rjúpnastofnsins.