Fuglaskoðun er skemmtilegt og gefandi áhugamál. Fugla er hægt að skoða nánast hvar og hvenær sem er án mikils tilkostnaðar enda er fugla að finna nánast hvarvetna. Tæki þarf ekki til þó skemmtilegt geti verið að sjá fuglana í meira návígi og það auðveldi greiningu. Þá hentar fuglaskoðun öllum aldurshópum og því kjörin fyrir fjölskyldur. Fuglaskoðun er líka áhugamál sem haldist getur út ævina.
Hér verður getið fimm einfaldra hollráða fyrir áhugasama um fuglaskoðun.
1. Fylgist vel með nýjum fugli. Ekki ætti að stökkva strax í fuglabækur þegar þið sjáið nýjan fugl því tíminn til athugunar er dýrmætur. Fylgist náið með fuglinum og reynið að ná inn sem flestum þáttum varðandi hann svo sem stærð og líkamslögun, lit og hegðun.
2. Verið vakandi fyrir ummerkjum eftir fugla. Það eru ýmsir þættir sem geta gefið til kynna að fuglar séu á staðnum þó engir sjáist. Hljóð koma upp um fugla og það að hlusta eftir fuglahljóðum er sérlega mikilvægt við fuglaskoðun, sérstaklega í skóglendi eða þar sem útsýni er takmarkað. Þá skilja fuglar eftir sig slóðir, skít, ælur og önnur ummerki sem oft eru einkennandi fyrir tegundina.
3. Kynnið ykkur vel tegundir sem áhugi er fyrir að skoða. Til eru nokkrar góðar fuglabækur og vert er að kynna sér vel þær tegundir sem óskað er eftir að sjá í fuglaskoðun. Þekking á ákveðinni tegund s.s. útliti, búsvæðavali, lifnaðarháttum, hljóðum og atferli eykur líkur á að sjá eða finna viðkomandi tegund.
4. Skráið hjá ykkur upplýsingar um fugla sem þið sjáið. Mjög gott er að halda dagbók um fugla sem sjást við fuglaskoðun, bæði hvaða tegundir sjást á hvaða stað en einnig atriði eins og fjölda, kyn ef hægt er, unga, atferli, kjörlendi, tíma dags og veður. Þegar nýir fuglar sjást er gott að skrifa útlitslýsingu. Góð dagbók gerir fuglaskoðun skilvirka og geymir upplýsingar á öruggan máta.
5. Grunnatriði í fuglaskoðun er samt alltaf að huga að velferð fuglanna. Ekki skal stunda fuglaskoðun með þeim hætti að fuglarnir beri skaða af. Þannig ætti að forðast að trufla varpfugla og virða þau lög og reglur sem settar eru til verndar fuglum. Sumar tegundir fugla njóta strangari verndunar en aðrar og þarf að taka tillit til þess. Til dæmis má ekki ljósmynda fálka við hreiður og ekki fara það nærri hreiðri fálkans að hann verði fyrir truflun. Nánar um friðun fálkans má sjá hér.