Samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er fálkinn alfriðaður og hefur verið svo frá því árið 1940.
Umferð við hreiður fálka
Um umferð manna við hreiður fálka gilda ákveðnar reglur en þeim er ætlað að koma í veg fyrir að fálkinn verði fyrir óæskilegri truflun af mannavöldum.
Í reglugerð nr. 456/1994, 6. gr. segir að:
- „Mynda- og kvikmyndataka af örnum, fálkum, snæuglum og haftyrðlum við hreiður þeirra er óheimil nema leyfis umhverfisráðuneytisins hafi verið aflað fyrirfram, að fenginni umsögn ráðgjafanefndar um villt dýr.“
- „Dvöl við hreiður umræddra fugla vegna athugana á lifnaðarháttum þeirra, til upptöku á hljóðum þeirra eða í öðrum þeim tilgangi sem ætla má að geti valdið óæskilegum truflunum, skal vera háð leyfi því sem um ræðir í 2. mgr.“ Þ.e. sú sem að ofan greinir.
Í reglugerð nr. 252/1996, 1. gr. segir að:
- „Dvöl manna er óheimil við hreiður fálka, hafarnar, snæuglu, haftyrðils, keldusvíns og þórshana vegna myndatöku, upptöku á hljóðum, athugana á lifnaðarháttum eða í öðrum tilgangi sem ætla má að geti valdið truflunum.“
- „Umhverfisráðuneytið getur, að fenginni umsögn ráðgjafanefndar um villt dýr, veitt undanþágu frá ákvæðum 1. og 2. málsgr., enda sé sótt um hana fyrirfram og skilyrði sett um umgang við hreiður, þ.á.m. um það tímabil sem viðkomandi er heimil dvöl við hreiður.“
- „Óheimilt er að hrófla við hreiðrum og hreiðurstöðum þeirra tegunda sem taldar eru upp í 1. málsgr., hvort sem er á varptíma eða utan hans.“
Dauðir fálkar og uppstoppun
Finni einhver dauðan fálka ber þeim hinum sama að skila honum inn til Náttúrufræðistofnunar Íslands sem kannar orsök að dauða fuglsins. Verslun með dauða fálka er óheimil.
Í reglugerð nr. 252/1996, 5. gr. segir að:
- „Þeir sem hirða haförn, fálka, smyril, haftyrðil í Grímsey, snæuglu, branduglu, keldusvín, þórshana eða flækingsfugla, ósjálfbjarga eða dauða, skulu senda þá til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ef umræddir fuglar drepast í haldi eða reynast ekki hafa verið skotnir er Náttúrufræðistofnun Íslands heimilt að afhenda finnanda fuglinn til uppsetningar og varðveislu. Óheimilt er að selja og kaupa slíka fugla“.
Og í 7. gr. segir að:
- „Þeir sem vilja taka hami eða skinn af villtum dýrum og setja upp skulu skrá sig hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Skráning þessi skal vera hamskera að kostnaðarlausu.“
- „Hamskerar skulu skrá öll villt dýr sem þeir setja upp og geta hvar, hvenær og hvernig dýrið fannst, frá hverjum það er og hver varðveitir það. Afrit af árlegum viðbótum við skrána skulu send til Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir 1. mars næsta árs.“
Cites
Árið 2000 fullgilti Ísland CITES- samninginn sem fjallar um alþjólega verslun með tilteknar tegundir lífvera og flutning þeirra milli landa. Um verslun með fálka gilda mjög ströng skilyrði og verslun með villta fálka er óheimil.