Þrávirk lífræn efni er samheiti yfir hóp efnasambanda sem eru mjög stöðug í náttúrunni og í lífverum ef þau berast í þær. Þessi efni eru fituleysanleg og geta borist í lífverur með fæðu. Helmingunartími efnanna er mjög langur og safnast þau því fyrir í fituvefjum dýra. Slík uppsöfnun í fæðukeðjunni nefnist líffræðileg mögnun (e. bioaccumulation) en þá eykst magn efnanna eftir því sem ofar dregur í fæðukeðjuna. Að lokum safnast efnin fyrir í langlífum rándýrum efst í keðjunni.
Skaðsemi efnanna byggist að mestu leyti á stöðugleika þeirra í lífverum og náttúrunni en ýmis þrávirk lífræn efni eru meðal alvarlegustu umhverfisvandamála jarðar. Ein þekktustu mengunarefnin eru skordýraeitrið DDT (díklór-dífenýl-tríklóretan) og PCB-efni (pólíklórbífenýlsambönd) sem eru af öðrum uppruna og aðallega notuð til einangrunar í stórum rafkerfum. Efnin valda yfirleitt ekki bráðri eitrun en uppsöfnun þeirra og hinn langi viðverutími í líkama dýra gera áhrif þeirra á ónæmiskerfið, frjósemi og krabbameinsmyndun að áhyggjuefni. Áhrif DDT á frjósemi fugla varð þess valdandi að athygli beindist fyrst að skaðsemi slíkra efna í náttúrunni.
Uppruna efnanna má oft rekja til iðnaðarsvæða en þaðan berast þau með vindi eða úrkomu en einnig berast þau með hafstraumum. Í jarðvegi eða sjó eru þau tekin upp af plöntum og berast þaðan upp fæðukeðjuna. Skordýraeitrið DDT kom á markað laust fyrir miðja tuttugustu öld og var það notað víða í landbúnaði en einnig til að stemma stigu við útbreiðslu malaríu. Notkun efnisins var bönnuð í Bandaríkjunum árið 1972 og fylgdu margar aðrar þjóðir í kjölfarið. Áhrifanna gætir þó enn í miklum mæli.