Eyðilegging á fálkaóðulum

Gæði fálkaóðala fer eftir ýmsum þáttum og má þar nefna fjarlægð í fengsælar veiðislóðir og fjöldi góðra hreiðurstæða. Sömu óðul hafa væntanlega verið notuð um langan tíma og góð hreiðurstæði nýtt öldum ef ekki árþúsundum saman. Viðkoma íslenska fálkastofnsins veltur því meðal annars á að fálkaóðulum sé ekki spillt en það getur gerst á ýmsa vegu.

Til að tryggja verndun fálka gilda sérstakar reglur um umferð manna í grennd við hreiður þeirra. Umferð við fálkahreiður getur truflað fálka, hvort sem hún er meðvituð eða ómeðvituð. Þannig getur umferð fyrir varp valdið því að fálkinn verpi ekki það árið. Truflun á álegu- og ungatíma getur hins vegar valdið því að fálkar afræki hreiður sín eða unga. Síendurtekið áreiti getur leitt til þess að parið gefist upp á óðalinu sem leggst við það í eyði.

Hreiðurstæðum fálka getur verið spillt með ýmsum hætti. Hrafnar eru stundum litnir hornauga og þeir skotnir eða hreiður þeirra eyðilögð (steypt undan hrafninum). Þeir eru þó fálkanum mikilvæg hjálparhella þar sem laupar þeirra eru vinsæl hreiðurstæði fálka sem ekki geta byggt hreiður sjálfir. Mikil fækkun hrafna og eyðilegging laupa veldur minna framboði á góðum varpstöðum fyrir fálkann sem þarf þá að velja á milli slakara hreiðurstæðis eða að fresta varpi. Stundum kemur fyrir að steypt sé undan fálkanum, hreiður hans eyðilagt eða komið í veg fyrir að hann verpi á gamla staðnum sínum.

Ýmsar framkvæmdir í nágrenni við hreiðurstæði fálka, með tilheyrandi truflun eða skemmdum á fálkaklettum geta einnig spillt fálkaóðulum.