Fálkadráp

Þrátt fyrir alfriðun fálka hefur hann mátt sæta því að vera skotinn. Ástæðurnar eru einkum tvær. Í fyrsta lagi telja sumir fálkann í „samkeppni“ við manninn um rjúpuna og tíðkast meðal sumra veiðimanna að skjóta á fálka ef hann flýgur í færi. Í öðru lagi hafa fálkar þótt tignarlegt stofuskraut og eru því víða til uppstoppaðir á heimilum landsmanna.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur rannsakað hræ friðaðra fugla sem fundist hafa á undanförnum árum. Þær rannsóknir sýna að fjórði hver fálki hefur verið skotinn en rannsakaðir voru 68 fuglar og reyndust 26% þeirra hafa í sér högl. Einn fálkinn var með 26 högl í sér og hafði drepist strax af sárum sínum. Hinir fálkarnir voru með 1-4 högl í sér og höfðu líklega flestir komist lifandi frá skotmanninum en áverkarnir átt þátt í dauða þeirra síðar. Þessi niðurstaða er sláandi. Hér er ekki aðeins um að ræða algjört virðingarleysi við landslög heldur einnig virðingarleysi við sjaldgæfa fuglategund sem á engan hátt ógnar tilvist eða hagsmunum mannsins.

        

Myndir fengnar af vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, www.ni.is. Þær sýna fálka með skotsár og gegnumlýstan fálka með högl í sér.

Óheimilt er að versla með dauða fálka sem og aðra friðaða fugla sem finnast á víðavangi. Finni einhver dauðan fálka ber þeim hinum sama að skila honum inn til Náttúrufræðistofnunar Íslands til rannsóknar. Náttúrufræðistofnun er heimilt að afhenda finnanda fuglinn til uppsetningar og varðveislu að lokinni rannsókn. Þrátt fyrir þessar reglur hafa uppsettir fálkar ljóst og leynt gengið kaupum og sölum. Ásókn í uppstoppaða fálka og gróðavon getur því auðveldlega orðið hvati að fálkadrápi.